Forsíða Saga Núpsskóla Myndabanki Fréttir Héraðsskólarnir Hollvinir Núpsskóla Gamla skólahúsið Hafa samband

Fréttir

Viðtal við Hollvini Núpsskóla á ÍNN

Aðalsteinn Eiríksson, Egill Ólafsson og Sigríður Valdimarsdóttir fóru í viðtal hjá Ingva Hrafni þriðjudaginn 25. apríl á ÍNN. Þar ræddu þau sögu Núpsskóla, gamlar minningar úr skólastarfinu, en Ingvi Hrafn er gamall nemandi, komandi 110 ára afmæli skólans, o.fl. skemmtilegt. Mjög skemmtileg umræða, endilega farið inn á www.inntv.is og horfið á þáttinn.  


Viðgerð á gamla skólahúsinu 

Nokkrir kraftmiklir fyrrum nemendur skólans fóru vestur síðasta haust og gengu frá gamla  skólahúsinu fyrir veturinn. Þeir negldu plötur fyrir glugga, o.fl. Verkið var styrkt af Ríkiskaupum með framlagi fyrir efniskostnaði. Annar kostnaður var framlag nemenda.  Hollvinir Núpsskóla þakka þessum fórnfúsu nemendum fyrir stuðninginn. 

Í vor verður farið vestur til að laga kjöl  á þaki skólahússins. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir að hafa samband við Steinar Vilhjálmsson í netfangi stvil@simnet.is

 

Gamla skólahúsið -  lokatilraun

Með vísan í lög félagsins (3. gr.) er höfuðmarkmið samtakanna að viðhalda minningu um starfsemi Núpsskóla með því að: Vinna að varðveislu og skráningu ýmissa muna s. s. kennslutækja, bóka, mynda, skólaspjalda, nemendaskrár, málverka og annarra hluta er notaðir hafa verið við kennslu svo og annarra muna í eigu Núpsskóla er gætu talist einstakir fyrir sögu hans.

Því miður eru margar eignir skólans á vergangi. Þar má nefna gömul kennslutæki, bækur, myndir, o.fl.  Þegar við uppgötvuðum hve lítið eftirlit er með þessum eignum á staðnum hófum við leit að lausn. Ein lausnin var að fá inni í gamla skólahúsinu og innrétta þar safn þar sem við gætum safnað þessum munum saman. Þegar betur var að gáð kom í ljós að gamla skólahúsið var að niðurlotum komið. Þá kviknaði sú hugmynd að slá tvær flugur í einu höggi. Að tryggja varðveislu þessara gagna og um leið að koma í veg fyrir að gamla skólahúsið yrði rifið, með því að þrýsta á ríkið um að setja upp safn í húsinu.

Við höfum farið á fjölda funda og sent bréf en án árangurs.  Fyrir skömmu fréttum við að á komandi mánuðum verða eignir ríkisins að Núpi auglýstar til sölu, þar á meðal gamla skólahúsið. Áhugasamir kaupendur geta keypt allar eignir eða hluta þeirra þar sem þeim hefur verið skipt í þrjár sjálfstæðar einingar: Nýi skólinn, skólastjóraálman og gamla skólahúsið. Við óttumst að aðilar innan ferðageirans muni kaupa allar eignir, eflaust munu þeir fá gamla skólahúsið í meðgjöf, og niðurstaðan verði að þeir brjóti niður gamla skólahúsið. Aðeins vegna þess hve kostnaðarsamt er að gera það upp.

Nú reynir á að koma í veg fyrir að ríkið láti húsið af hendi við aðila sem gætu haft lítinn áhuga á sögu þess.
Því munum við reyna einu sinni ennþá að ná áthygli ráðamanna.

Þeir sem þekkja til slíkra mála og vilja leggja okkur lið hafið samband við Steinar Vilhjálmsson í netfang stvil@simnet.is

© 2016 Hollvinir Núpsskóla