Forsíða Saga Núpsskóla Myndabanki Fréttir Héraðsskólarnir Hollvinir Núpsskóla Gamla skólahúsið Hafa samband

Héraðsskólarnir

Fyrsti  skólinn  þar  sem  unglingar  dvöldu  á  heimavist  tók  til  starfa  að  Núpi  í Dýrafirði árið 1907 og síðan hver af öðrum þar til þeir voru orðnir tíu talsins, dreifðir um  byggðir  landsins.  Auk  Núpsskóla  var  skóli  að  Laugarvatni  í Árnessýslu,  Reykholti í Borgarfirði,  Reykjum  í  Hrútafirði,  Laugum  í  Sælingsdal,  Eiðum  á  Héraði,  Laugum  í Suður-Þingeyjarsýslu, Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, Varmahlíð í Skagafirði og Skógum í  Rangárvallasýslu.  

Fjöldi nemenda  var vissulega  mismunandi  eftir  skólum  og líka breytilegur  milli  ára,  en  á  árunum  1935-1938  voru um  500  nemendur  í  sjö skólum.  Fullyrða  má  að  mörg  þúsund Íslendingar  hafi stundað nám  við  þessa skóla  en  þessir  nemendur  eru  núna  komnir á  fullorðinsaldur. Samfara  miklum samfélagsbreytingum  dró smám  saman  úr starfsemi  héraðsskólanna og um  aldamótin 2000 heyrðu þeir sögunni til í sinni upprunalegu mynd. Þéttbýli jókst hröðum skrefum á 20. öld  og afleiðingin  varð  sú  að  stórar og  miklar  byggingar héraðsskólanna tæmdust  af nemendum og stóðu að lokum auðar.  

Mikið hefur verið ritað um héraðsskólana. Mikilvægi þeirra í menntakerfi landsins og saga þeirra. Hinsvegar hefur minna verið ritað um uppeldisleg áhrif þeirra. Nemendur fengu ekki aðeins kennslu í helstu fræðum heldur fengu þeir félagslega og verklega þjálfun í skólunum.  Oftast var félagslíf kröftugt ásamt íþróttalífi.

Sem dæmi um félagslíf má nefna kvöldvökur sem voru víðast hvar haldnar með ýmsum skemmtiatriðum og leikþáttum, skólaböll og skólahljómsveitir voru í nær hverjum skóla og ýmiskonar íþróttaiðkun og keppnir voru stór hluti starfsins. Víða voru gefin út skólablöð, kennd var smíði, hannyrðir, ljósmyndun, o.fl. 

Nemendur heimavistarskólanna eyddu miklum tíma í félagsskap hvers annars, jafnvel í þrjá vetur. Sterk vinasambönd mynduðust sem halda enn í dag, jafnvel urðu til hjónabönd úr verunni á skólunum.  

Í minningargrein um samnemanda kemst fyrrum nemandi svo að orði:

"Vera í skólanum á Núpi, í heimavist eiginlega alveg uppá eigin spýtur hvað aðhlynningu varðaði, í heila tvo vetur á þessum tíma, gerði veruleg kaflaskil í lífi manns, það voru tímamót. Sjóndeildarhringurinn stækkaði og annað meira, það fæddist með manni samkennd, ekki síst þeim sem komu úr strjálbýlinu, það gerðist eitthvað stórkostlegt sem greyptist í meðvitundina og vék ekki þaðan, eitthvað sem aldrei var uppgert, eitthvað sem enginn reyndi að útskýra."

Með stofnun héraðsskólanna gafst fólki á landsbyggðinni í fyrsta sinn tækifæri til að ná sér í menntun umfram stutta skólagöngu í barnaskóla. Jafnframt fluttist fjöldi menntaðra skólamanna út á landbyggðina sem kennarar í þessum skólum og fluttu með sér menningarstrauma og þekkingu frá höfuðstaðnum eða erlendum skólum.

Margir þessara skóla tóku á móti ungu fólki af öllu landinu, sem enn í dag bera hlýjan hug til skólanna og þar með landshlutans. Skólarnir voru því góðir fulltrúar hvers landshluta.

Héraðsskólarnir voru í upphafi eins og vorvindar í sveitum landsins og gluggi út í hinn stóra heim. Hvatamenn að stofnun skólanna voru hugsjónamenn sem trúðu að þeir væru með því að byggja upp menntun sem gagnaðist alþýðu landsins. Þeim tókst ætlunarverk sitt, ungt fólk fékk menntun.

© 2016 Hollvinir Núpsskóla