Forsíða Saga Núpsskóla Myndabanki Fréttir Héraðsskólarnir Hollvinir Núpsskóla Gamla skólahúsið Hafa samband

Björgum gamla skólahúsinu að Núpi

Tómlæti og skeytingarleysi er e.t.v. versti löstur mannanna og á stundum gerist það að heilu samfélögin smitast af þessum lesti og þá er eins og verði faraldur og allt virðist koðna niður og verða eyðileggingu að bráð. Stundum birtist tómlætið okkur fullkomlega,  þannig er það með gamla byggingu, sem að vísu tengist sögu þúsunda einstaklinga sem dvöldu þar, störfuðu og lifðu í vel rúm áttatíu og fimm ár; þetta er gamla skólabygging Héraðsskólans á Núpi í Dýrafirði. Það dylst engum sem gengið hefur nýlega um þetta gamla skólahús að það er þessi misserin að eyðileggjast í bókstaflegri merkingu þess orðs.  Það sem gerist nánast ávallt í kjölfar eyðileggingar, er að sagan fellur í dá og gleymsku og fyrir vikið eru komandi kynslóðir snuðaðar um eðli framvindu og þróunar í samfélaginu og eins hitt; að hlutskipti þeirra sem fóru á undan er vanvirt.

Gamli skólinn, sem er um 1200 fermetrar að stærð, er í dag í mjög slæmu ástandi. Útveggir skólans eru mikið skemmdir ásamt þaki og gluggum. Gler hefur brotnað í gluggum á efri hæð vestari álmu og snjóar og rignir inn. Allt ástand hússins að innan er svipað. Skólinn  hefur m.a. verið notaður sem geymsla. Einnig eru ónýt bílhræ á lóð skólans. Skólinn er lítið hitaður upp og því hætta á að hann saggi mikið. Fyrir neðan eru nokkrar myndir sem formaður Hollvina Núpsskóla tók í mars 2016 af ástandi skólans. Myndirnar tala sínu máli.

Við viljum sérstaklega taka það fram að við álösum ekki núverandi eða fyrrverandi starfsmenn skólans fyrir ástandið, þeim var þröngt sniðinn stakkurinn. Við vitum einnig að eigendur skólans voru í erfiðri stöðu, þeir höfðu úr takmörkuðu fé að spila. Það er því ekki við neinn að sakast.  

Nauðsynlegt er að bregðast hratt við að okkar mati og loka skólahúsinu til að forða því frá frekari skemmdum. Síðan tekur við öflun fjár til áætlaðra framkvæmda, sem verður skipt upp í áfanga. Fyrsti áfangi verður úttekt á ástandi hússins og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar. Bæði þarf að fá verkfræðinga og arkitekta til að vinna þá áætlun. Því næst verður hafist handa við að safna fé til framkvæmda á hverjum áfanga.  

Gluggar eru brotnir, húsið lekur, þak er ónýtt, o.s.frv.
Gamla mötuneytið
Gömlu skólastofurnar
Miklar steypuskemmir á húsum
Gangur
Enn meiri steypuskemmdir
Gólf eru öll mjög slitin
Íþróttasalur
Verkstæði í gamla matsal
Gamli matsalur
Útveggir hálf ónýtir
Aftur gamla mötuneytið
Útveggir
Íþróttasalur og senan
Íþróttasalur
Steypuskemmdir



Hugmyndir okkar um framtíð gamla skólahússins:

Fræða-og menningarsetur verði byggt upp að fyrirmynda annarra líkra setra á Íslandi.

Þar verði sett upp kynning á sögu Núpsskóla og héraðsskólanna almennt. 

Stofnuð verði sjálfseignarstofnun sem lýtur lögum og eftirliti stjórnvalda. 

Stjórn verður skv. samþykktum félagsins skipuð fulltrúum ríkisins, sveitarfélagsins og Hollvina Núpsskóla, og markar hún heildarstefnu og starfsramma stofnunarinnar, en kemur ekki að daglegum rekstri.

Meginmarkmið stofnunarinnar verði varðveisla og viðhald þess menningararfs sem felst í sögu skólans og nánasta umhverfis hans. 

Þetta verður gert með tvennum hætti, rekstri sýningar á sögu skólans, útleigu á húsnæði til funda, samkomustarfs og fræðastarfa.

Til greina kemur útvíkkun setursins til þátta í umhverfi og héraðssögu svo sem sögu ungmennafélaga, stúkufélaga, búnaðarfélaga, slysavarna og kvenfélaga, Skrúðs og Hlíðar eftir samkomulagi við eigendur.

Setrið mun verða mikilvægt innlegg í fjölbreytta afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum. 

 

 

© 2016 Hollvinir Núpsskóla